Af hverju MR?
Sveinbjörn Finnsson, 4.T
„Ég ætlaði alltaf í Menntaskólann í Reykjavík. Allir fjölskyldumeðlimir mínir höfðu verið í MR svo ég er af þriðju kynslóðinni í fjölskyldunni sem gengur þessa glæsilegu menntabraut sem MR er. Önnur ástæða er ellefu ára sigurganga í Gettu betur frá því að ég var fjögurra ára. Hugmynd mín um Menntaskólann í Reykjavík var sem sagt sú að þarna væri gamall og virtur skóli með góða blöndu af gáfuðu fólki, vitsmunum og áhugaverðum, gömlum hefðum. Allt þetta reyndist vera rétt. Það sem bættist svo við listann þegar ég gekk í skólann var öflugt félagslíf, ótrúlega góður andi innan skólans, rosalega sterk heild sem bekkurinn minn myndaði og nýir vinir. Nú er ég hálfnaður með göngu mína í MR og finnst mér tíminn hafa liðið alltof hratt og hefur ekki enn komið sá dagur þar sem ég hef séð eftir því að hafa orðið hluti af þessum merka menntaskóla.“
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, 3.C
„Ég verð að viðurkenna að ég var aldrei neitt voðalega hrifin af MR, aðallega því pabbi var í honum og allir gerðu ráð fyrir að ég færi líka. En þegar ég svo gekk inn í aðalbygginguna í fyrsta skipti má segja að ég hafi óvart orðið skotin í Menntaskólanum í Reykjavík. Andrúmsloftið var svo heimilislegt og mettað af sögu, fólkið virkaði hresst og félagslífið hljómaði frábærlega. Mér fannst ég vera að koma heim. Ég sé ekki eftir að hafa valið skólann, en ég held að sú ákvörðun að fara í MR sé besta ákvörðun sem ég hef nokkurn tíma tekið.“
Davíð Oddsson, eilífðar MR-ingur
„Árin mín í MR voru mjög fjörug og skemmtileg því MR var og er öðruvísi en flestar aðrar stofnanir. Ég var nú aldrei sérstakur námsmaður og féll á fyrsta árinu í MR. Síðan var ég nú vel virkur í skemmtanalífinu sem hjálpaði varla heldur. Reynslan sem ég fékk úr MR bæði sem inspector og einnig í leiklistarstörfum í Herranótt hefur reynst mér mjög vel. MR var og er yndislegur skóli og því er mjög mikilvægt að allir njóti tímans þar. Annars sendi ég bara þau skilaboð að MR-ingar haldi hefðunum og sérstöðu sinni áfram og þá mun þeim farnast vel í framtíðinni.“
Högna Hringsdóttir, 5.R
„Þegar ég stóð frammi fyrir því að sækja um framhaldsskóla vissi ég ekkert hvað ég vildi gera. Vinkonur mínar ætluðu allar að sækja um í Fjölbraut í Garðabæ svo það var sjálfsagður og eðlilegur kostur fyrir mig. Eftir tveggja ára nám þar langaði mig þó að prófa eitthvað nýtt enda orðin nett þreytt á átthaganum. Þá var ég komin aftur í þá stöðu sem ég var í 10. bekk: Í hvaða skóla vil ég fara? Ég var fljót að velja næsta skref. Ég vildi sterkt skólakerfi, öflugt félagslíf og BEKKJAKERFI! MR var málið! Fyrsti skóladagurinn var reyndar svolítið stressandi. Skólinn þekktur fyrir íhaldssemi og ofurkröfur og ekki hjálpaði að ég þekkti svo gott sem engan. Raunin var að krakkarnir tóku mér með opnum örmum og með smá skipulagningu og góðri trú á sjálfa mig komst ég að því að það er ekkert mál að stunda nám við skólann auk þess sem það er meiriháttar skemmtilegt.“
Ylfa Hafsteinsdóttir, 4.A
„Það var alltaf ætlunin að fara í MR. Í mínum huga kom ekkert annað til greina. Ástæðan er einföld: Besta námið sem völ er á og þar af leiðandi besti undirbúningurinn fyrir áframhaldandi nám. Ekki bara það að MR hafi upp á að bjóða besta námið heldur höfum við einnig besta félagslífið. Það var eitthvað sem mér hafði aldrei dottið í hug áður en ég byrjaði í MR. En félagslífið hefur verið það sem hefur gert þessi tvö ár hvað skemmtilegust. Hér hef ég eignast marga vini sem ég veit að munu verða vinir mínir löngu eftir að skólagöngu okkar í MR lýkur. Ég held að það sé ekki hægt að finna betri skóla en MR.“
Þorgeir Orri Harðarson, 5.M
„Af hverju MR er auðveld spurning. Skólinn býður upp á bekkjakerfi og öflugt félagslíf ásamt því að bjóða upp á almennan hressleika eins og hann gerist bestur. Vegna bekkjakerfisins verður þú sjálfkrafa hluti af öflugum hópi sem mun missa sig í alls kyns vitleysu svo sem matarboðum, þemakvöldum, bústaðarferðum en þó aðallega almennu partýstandi. Oftast eru það litlu smáatriðin sem heilla okkur í fari einhvers og þó að skólinn sé fullur af töfrandi smáatriðum svo sem litlum sturtuklefum, sælustykkjum og hættulega lágri lofthæð þá eru það stóru hlutirnir sem gera hann að þeim góða skóla sem hann er. Frábær böll, krefjandi nám, öflugt félagslíf og fyrst og fremst gott fólk mun gera menntaskólagöngu þína ógleymanlega. Og hey... partý!!“
Soffía Scheving Thorsteinsson, 3.D
„Þegar ég átti að velja mér framhaldsskóla var ég ekki viss hvaða skóla ég vildi velja. Ég skoðaði nokkra skóla en að lokum valdi ég MR. Ég valdi hann í von um gott nám og skemmtilegt félagslíf og hann stóð svo sannarlega undir þessum væntingum. MR er svo miklu meira en fólk sem lærir eins og brjálæðingar og gerir ekkert annað. Félagslífið er frábært og stemmingin í skólanum er alltaf hress. Ég átti alveg von á góðu félagslífi en það var mun betra en ég bjóst við. Nú þegar fyrsta árið mitt er á enda get ég ekki hugsað mér að vera í öðrum skóla.“
Birta Svavarsdóttir, 4.A
„Hefur einhver sagt við ykkur: „Ef þú ferð á málabraut þá lokarðu fyrir alla möguleika“? Well, duh! Auðvitað lokarðu fyrir einhverja möguleika en opnar jafnframt fyrir aðra. Að mínu mati er málanám eitt það besta og verðugasta nám sem þú getur stundað og í MR eru bestu málabrautir landsins. Þess vegna valdi ég MR. Á fornmálabraut er kafað djúpt í latínu og gamall menningarheimur opnast. Eftir að hafa lært latínu sé ég heiminn með öðrum augum og skil þónokkuð úr öðrum tungumálum sem ég hef aldrei lært! Það geta allir lært að reikna (meira að segja ég) en þú þarft innsæi og tilfinningu í tungumálanám. Veldu rétt, komdu á málabraut og sparkaðu í rassinn á stærðfræðikennaranum þínum sem heldur að samræmdu prófin í stærðfræði séu það svakalegasta norðan Alpafjalla. Treystu mér, þau eru það ekki. Í grunnskóla var ég pínu lúði... ok ok ok... ég var mega-lúði. Eftir að ég kom í MR þá tók ég gagngert þá ákvörðun að mig langaði ekkert sérstaklega mikið að vera lúði lengur. Ég ákvað að kynnast mismunandi fólki, eignast mismunandi vini og hafa mismunandi gaman. Núna á ég fjölbreyttan og stóran vinahóp og alltaf eru nýjar týpur að bætast í hann. Í MR ertu það sem þú kýst að vera og allir eru svalir á sinn eigin hátt. Það finnst mér það besta við þennan skóla, þess vegna elska ég MR.“
Guðbjörg Himarsdóttir, 3.G
„Mig hafði alltaf langað að fara í MR, hafði heyrt rosalega gott um skólann og því stefndi ég í MR. Skólinn hefur engan veginn valdið mér vonbrigðum. MR hefur ekki bara gott nám heldur er þar líka stórkostlegt félagslíf. Frá því ég byrjaði í skólanum hefur hver einasti dagur verið frábær, alltaf eitthvað skemmtilegt að gerast í hádeginu og eftir skóla. Einnig frábær skólaböll sem enginn ætti að missa af og ótrúlega skemmtilegir krakkar. Staðsetning MR er einstök þar sem skólinn er í miðbænum og því stutt í kaffihús og fleiri skemmtilega staði.“
Magnús Þorlákur Lúðvíksson, 5.Y
„Tveimur dögum áður en að fresturinn til að velja framhaldsskóla rann út ætlaði ég að fara í MH. Fjölbrautakerfið heillaði og mér fannst tilhugsunin um gamaldags einhæfa menntastofnun á borð við MR fráhrindandi. Ég veit ekki alveg af hverju en einhverra hluta vegna valdi ég svo MR. Fólkið sem ég þekkti sem ætlaði í MR var í langflestum tilvikum gott fólk og það var eitthvað sérstakt við þennan gamla skóla á hæðinni við Lækjargötu. Ég þekkti ekki marga nemendur þegar skólastarfið byrjaði, ég átti nokkra góða vini úr Hagaskóla og ýmsa kunningja en flestir voru mér algjörlega ókunnugir. Ég kynntist fullt af krökkum strax fyrstu dagana og eftir einungis nokkrar vikur leið mér eins og heima hjá mér. Þær hugmyndir sem ég hafði um gamladags, einhæfa menntastofnun voru ekki á rökum reistar og það rann upp fyrir mér að ég hafði klárlega valið rétt. Þegar ég lít til baka þá er ég ekki frá því að valið á MR hafi verið besta ákvörðun sem ég hef nokkru sinni tekið, ég hefði kannski fílað mig í flestum skólum en mín upplifun er að sá samstöðuandi sem ríkir í MR finnist hvergi annars staðar auk þess sem að það er bara hvergi jafn mikið partí. Árin mín í MR hafa sannarlega verið einstök og þau bönd sem ég hef tengst við MR munu aldrei rofna.“
|