Kæri nemandi
Þegar ég valdi mér menntaskóla hafði ég litla hugmynd um hvernig skólarnir væru í raun og veru. Ég hlustaði á sögur af krökkum sem höfðu farið í hina og þessa skóla, fór á flestar kynningarnar og ákvað mig loksins. En á síðasta degi skipti ég um skoðun og ákvað að fara í MR. Ég get ekki ennþá rökstutt það, ég byggði þetta bara á tilfinningu sem ég hafði. Núna, þremur árum síðar, gæti ég ekki hugsað mér að hafa farið annað. Ég fann mig algerlega í skólanum og upplifi hann sem skólann „minn“. Það er svo margt í MR sem erfitt er að lýsa í orðum, þetta er einhver góð tilfinning. Manni líður einfaldlega vel í skólanum. Hluti af þessari tilfinningu er jákvæð og góð stemning. Allir eru í sama liði. Þessi andi gerir manni kleift að kynnast fullt af nýju fólki. Í félagslífinu fá allir að vera með og bekkjakerfið hristir nemendur saman strax á fyrsta ári. Ég hef kynnst mínum bestu vinum í MR einmitt vegna þess.
Þessi vefsíða Skólafélagsins, nemendafélags MR, mun kynna fyrst og fremst félagslífið og almennar upplýsingar um skólann. Einnig er hægt að skoða mikið um skólann annars staðar á netinu, t.d. á mr.is, skolafelagid.mr.is og framtidin.mr.is.
Ef þú hefur áhuga á að koma í skólann þá get ég lofað því að þér mun aldrei leiðast. Tónleikar, námskeið, íþróttakeppnir, kvikmyndakvöld, fyrirlestrar, fjölmennt leikfélag, ferðafélag, skólablöð, söngkeppni, gangaslagur, tvær árshátíðir og sex böll. Þetta var hluti af félagslífinu í vetur og þann næsta verður enn meira í boði.
En þitt er valið. Að velja sér framhaldsskóla er ein af fyrstu stóru ákvörðunum lífs þíns og því er mikilvægt að vanda valið. Ég hvet þig til að kynna þér skólana vel, hugsa þig vandlega um og finna út hvert þig virkilega langar að fara. Ef þú velur Menntaskólann í Reykjavík þá tökum við þér opnum örmum.
Spurningin er: viltu vera með?
Björn Brynjúlfur Björnsson,
Inspector scholae.
|